Getan til að læra
Ég verð reglulega vitni að því að við ofmetum hversu mikið mál það er fyrir starfsfólk að tileinka sér nýja færni eða setja sig inn í flókin mál sem það hefur enga fyrri reynslu af. Virðismat á sérhæfðri þekkingu er of hátt á kostnað þess virðis sem fólgið er í getunni til að læra.
Í upplýsingatækni birtist þetta til dæmis þannig að fyrirtæki þora ekki að gera starfsmannabreytingar eða skipta um þjónustuaðila því þar sé svo mikil sértæk þekking á tilteknu kerfi. Mín reynsla er að þegar á hólminn er komið er klárt fólk undantekningalaust fljótt að setja sig inn í tækni sem það hafði aldrei snert á áður.
Í starfsauglýsingum birtist þetta gjarnan þannig að tólin virðast skilgreina starfið: „5+ ára reynsla af C# skilyrði“. Við setjum of mikinn fókus á tólið en of litla áherslu á vinnubrögðin. Og hvað með forritarann sem hefur enga þekkingu á C# en hefur tileinkað sér þrjú önnur forritunarmál og notað þau í verkefnum sem reyndust vel heppnuð? Þó dæmin snúi að mínum bransa má sannarlega heimfæra þau víðar.
Í ráðningum hjá hinu opinbera gengur þessi vitleysa lengst þar sem fólk er metið að verðleikum út frá námsgráðum, árafjölda í starfi eða mjög sértækum þáttum. Málaferli spretta upp þegar umsækjendur telja sig hafa verið hlunnfarna þar sem þeir hafi sérhæft sig í mastersnámi sínu í einhverju sem sá sem hreppti starfið hafi ekki gert eða hafi hafi lengri reynslu af opinberri stjórnsýslu svo dæmi séu tekin.
Þegar við nálgumst hlutina með þessum hætti eru fyrirtæki að festa í sessi „inni í kassanum hugsun“ og fara á mis við þau jákvæðu áhrif sem blöndun ólíkrar reynslu hefur á verkefni. Fólk með ólíka reynslu kemur með fersk augu og annað sjónarhorn á verkefnin.
Sérhæfð þekking skiptir máli en drifkraftur, frumkvæði, sjálfstraust, tilfinningagreind, samskiptahæfileikar og getan til að tileinka sér nýja hluti hratt hefur af minni reynslu miklu meiri áhrif á árangur í starfi. Þetta eru hlutir sem er erfitt að lesa út úr ferilskrá en þú einfaldlega skynjar eftir 10 mínútuna nærveru með manneskju.
Hættum að ráða bara starfsfólk sem passar nákvæmlega inn í færnikröfur gærdagsins og ráðum fólk sem hjálpar okkar að þróa og móta þekkingu sem gerir okkur samkeppnishæfari til framtíðar.